Mikil hálka er í höfuðborginni og hafa vandræði skapast af því í umferðinni. Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins urðu tíu árekstrar með stuttu millibili upp úr klukkan átta í morgun og í það minnsta tveir bílar hafa oltið og lent utan vegar.
Margir árekstranna urðu í Austurborginni og á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi. Stór vöruflutningabíll fór yfir hringtorg á Vesturlandsvegi og stakkst ofan í skurð handan við það.
Lögreglan hefur ekki upplýsingar um nein alvarleg slys á mönnum. Ein kona var þó flutt á slysadeild LSH með minniháttar áverka eftir að jeppi hennar lenti utan vegar í Garðabæ.