Munur á því verði sem tannlæknar innheimta að jafnaði fyrir þjónustu sína og þeirri gjaldskrá sem Tryggingastofnun ber að miða greiðsluþátttöku sína við hefur vaxið umtalsvert. Fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar, að gjaldskrá almennra tannlækna sé að meðaltali ríflega 34% yfir gjaldskrá ráðherra. Verðmunur á þjónustu tannlækna er hins vegar mikill eða frá 130% yfir gjaldskrá ráðherra til rúmlega 6% undir gjaldskránni.
Tryggingastofnun greiðir 75% af kostnaði vegna tannlækninga barna undir átján ára aldri og er endurgreiðslan miðuð við gjaldskrá heilbrigðisráðherra sem síðast var hækkuð árið 2004. Fram kemur á heimasíðu TR, að eftir að tannlæknar sögðu upp samningum við stofnunina árið 1999, og verðlagning þeirra varð þannig frjáls, hafi munurinn á gjaldskrá ráðherra og verði margra tannlækna stóraukist. Þetta hafi aftur leitt til þess að hlutfallsleg greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar í tannlæknakostnaði hafi minnkað.
„Með því að innleiða frjálsa verðlagningu á tannlæknaþjónustu var stigið skref í átt til frjálsrar samkeppni. Á hinn bóginn er tannlæknum meinað að auglýsa þjónustu sína sem torveldar forráðamönnum barna að afla upplýsinga um verðlagningu hinna ýmsu tannlækna og velja þá sem bjóða bestu kjörin. Því má segja að þótt skref hafi verið stigið í átt til frjálsrar samkeppni hafi það ekki verið stigið til fulls, neytendum til tjóns," segir Tryggingastofnun.
Hæsta greiðsla Tryggingastofnunar vegna þjónustu einstaks sérfræðings nam tæpum 57 milljónum króna árið 2006. Það ár nam hæsta greiðsla Tryggingastofnunar vegna einstaks almenns tannlæknis ríflega 20 milljónum króna og hæsta greiðsla vegna tannsmiðs 12,5 milljónum króna. Ekki er um laun viðkomandi einstaklings að ræða heldur greiðslu vegna þjónustu fyrir tryggða skjólstæðinga Tryggingastofnunar.