Sjálfsbjörg gagnrýnir reglugerð um styrki vegna bifreiðakaupa

Frá húsnæði Tryggingastofnunar.
Frá húsnæði Tryggingastofnunar. mbl.is/Árni Torfason

Sjálfsbjörg gagnrýnir nýja reglugerð sem tók gildi í síðustu viku hvað varðar styrki vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra einstaklinga. Samkvæmt tilkynningu var hvorki Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra, né Öryrkjabandalagi Íslands gefin kostur á að fá reglugerðina til umsagnar áður en hún var undirrituð af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

„Fyrir hreyfihamlaða einstaklinga er bifreið grundvallarhjálpartæki til þátttöku og virkni í samfélaginu.

Mikil rýrnun hefur orðið á styrkjum og uppbótum frá Tryggingastofnun ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiðakaupa á síðustu árum. Styrkupphæðir samkvæmt reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hafa ekki hækkað í 8 ár og tími milli styrkveitinga hefur verið lengdur, sem hefur leitt til verulegrar rýrnunar á verðgildi styrkja.

Breyting á gildandi reglugerð tók gildi 22. mars 2007, en þar er ekki tekið á rýrnun styrkja og uppbóta heldur m.a. sett ákvæði um takmörkun á frelsi einstaklings til að velja sér bifreið og virðist farið offari í þeim kröfum.

Hvorki Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra, né Öryrkjabandalagi Íslands var gefin kostur á að fá reglugerðina til umsagnar áður en hún var undirrituð af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Sjálfsbjörg vekur af þessu tilefni athygli á þeirri kröfu að komið verði á fót formlegum samráðsvettvangi samtaka fatlaðra og stjórnvalda þar sem samtökum þeirra er veittur eðlilegur aðgangur og vettvangur til að fjalla um málefni sem að fötluðum snýr.

Sjálfsbjörg hefur áður gert athugasemdir og komið með ábendingar varðandi núgildandi reglugerð og sendi stjórnvöldum tillögur um lækkun á bifreiðakostnaði hreyfihamlaðra seint á árinu 2006, sem ekki hafa fengist viðbrögð við. Því er lýst eftir svörum og samráði við samtök fatlaðra nú þegar um þetta mál," samkvæmt tilkynningu frá Sjálfsbjörgu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert