Gestur: Því fer víðsfjarri að saksóknari hafi gætt hlutleysisskyldu

Verjendur hófu í morgun að flytja ræður sínar í Baugsmálinu.
Verjendur hófu í morgun að flytja ræður sínar í Baugsmálinu. mbl.is/G. Rúnar

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, gagnrýndi Sigurð Tómas Magnússon, settan saksóknara í Baugsmálinu harðlega í upphafi varnarræðu sinnar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sagði Gestur, að þótt Sigurður Tómas kunni að hafa haldið af stað með þeirri fyrirætlan að skoða málið sjálfstætt hafi kappið að ná fram sakfellingu náð yfirhöndinni og jafnframt hafi týnst öll sanngirni í garð sakborninga. Þetta hefði endurspeglast í ræðu saksóknara í málflutningnum.

Gestur sagði sakborninga telja að rannsókn lögreglu og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte hafi verið ófullnægjandi og lítið hafi verið hlustað á skýringar vitna á atriðum sem var sakborningum í hag. Rannsóknin hefði byggðist á ranghugmyndum um staðreyndir og vanþekkingu á viðskiptum fyrirtækis af stærðargráðu Baugs. Þá stæðu verjendur sakborninga í þeirri meiningu, að á saksóknara hvíli hlutlægnisskylda. Honum beri að gera grein fyrir atvikum þessa máls og horfa jafnt til atriða sem horfa til sýknu og sakleysis. Að mati verjendanna færi því víðsfjarri að framganga saksóknara væri í samræmi við hlutlægnisskyldu.

Gestur sagði að það hefði valdið vonbrigðum, hve grunnt var farið í lögfræðiþáttinn í ræðu saksóknara en langt í upphrópunum, sem ekki væru innlegg í málið. Gagnrýndi Gestur saksóknara einnig m.a. fyrir orðanotkun í málflutningi sínum, þar á meðal fyrir að hafa notað orðin spilling á hæsta stigi um það, að forsvarsmenn Baugs fengu lán hjá fyrirtækinu fyrir hlutafjárkaupum. Sagði Gestur að ef það flokkaðist undir spillingu af hæsta stigi að menn, sem skráðu sig fyrir hlutafjárloforðum, greiddu þau ekki á réttum tíma þá væri Baugur í góðum málum.

Sagði Gestur þessi ummæli saksóknara minna á orð sem féllu í Hæstarétti í öðrum anga Baugsmálsins þegar Sigurður Tómas sagði að Jón Ásgeir væri líkur svikulum fjósamanni, sem stæli nytinni úr kúm en þessi ummæli hefðu orðið fyrirsagnarefni bæði hér á landi og annarsstaðar. Sagði Gestur að mikil ábyrgð fylgdi að hafa það vald, sem saksóknari hefði og máli skipti, að ganga ekki lengra en tilefni gæfist til í orðanotkun gagnvart sakborningum.

Gestur sagði einnig, að það væri mat sakborninga að sakfelling í opinberum málum gæti aldrei byggst á tölvupóstum og vísaði til álitsgerða um að ekki væri hægt að skera úr um að tölvupóstar, sem lagðir voru fram í málinu, væru ófalsaðir. Færði Gestur fleiri rök fyrir þessu.

Gerði Gestur þær kröfur, að Jón Ásgeir yrði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu og að ríkisvaldið greiði allan málskostnað. Fram kom í máli Gests, að hann hafi í gær fengið bréf í gær frá ríkislögreglustjóra þar sem Jón Ásgeir er boðaður til yfirheyrslna á tímabilinu 23.-27. apríl vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum í tengslum við rekstur Baugs. Sagði Gestur, að sér þætti framganga ákæruvaldsins einkennast af miskunnarleysi gagnvart því fólki, sem ætti í hlut.

Verjendur sakborninga flytja varnarræður sínar í dag og á morgun en gert er ráð fyrir að málflutningi ljúki síðdegis á morgu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert