Íslenskir karlar verða karla elstir í heiminum

Aldraðir Úkraínumenn ræða málin
Aldraðir Úkraínumenn ræða málin ap

Eins og annars staðar í heiminum er meðalævilengd karla styttri en kvenna. Íslenskir karlar geta nú vænst þess að verða 79,4 ára gamlir en konur 83,0 ára (miðað við meðaltal áranna 2005 og 2006). Á undanförnum áratugum hefur dregið nokkuð saman með kynjunum í meðalævilengd. Á sjöunda og áttunda áratug var um sex ára munur á ævilengd karla og kvenna en er nú einungis 3,6 ára. Svipaða þróun má greina annars staðar í Evrópu, einkum á Norðurlöndunum. Af Norðurlöndunum utan Íslands er þessi munur minnstur í Svíþjóð 4,4 ár.

Lífslíkur karla hérlendis hafa þannig batnað meira en kvenna á undanförnum áratugum. Nú er svo komið að íslenskir karlar verða karla elstir í heiminum, 79,4 ára. Hið sama verður ekki sagt um konur. Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hærri en annars staðar í heiminum en nú lifa konur nokkra þjóða lengur en kynsystur þeirra á Íslandi. Þetta á einkum við um Japan, en meðalævilengd japanskra kvenna er nú 85,6 ár. Af Evrópuþjóðum verða konur í Sviss og á Spáni nokkru eldri en þær íslensku.

Í frétt frá Hagstofu Íslands kemur fram að árið 2006 dó 1.901 einstaklingur á Íslandi, 959 karlar og 942 konur og var dánartíðni 6,2 á hverja 1.000 íbúa. Aldursbundin dánartíðni er hærri meðal karla í nær öllum aldurshópum. Mest er þetta áberandi meðal einstaklinga á aldrinum 20-40 ára og meðal þeirra allra elstu. Dánartíðni kynjanna er jöfn meðal einstaklinga undir tvítugu.

Annars staðar á Norðurlöndum nema í Danmörku er ævilengd kvenna lítilsháttar lægri en á Íslandi. Meðalævilengd í Danmörku er fremur stutt í samanburði við lönd í vestanverðri Evrópu; konur þar geta einungis vænst þess að verða 80,3 ára gamlar og karlar þar verða 75,4. Finnskir karlar verða jafn gamlir og danskir kynbræður þeirra en þar er ævilengd kvenna aftur á móti litlu styttri en hér. Munur á ævilengd karla og kvenna í Finnlandi er því mestur á Norðurlöndum (6,9 ár).

Ævilengd rússneskra kvenna styttist

Af öðrum Evrópuþjóðum er munur á ævilengd kynjanna mestur í löndum sem tilheyrðu gömlu ráðstjórnarríkjunum. Þetta er mest áberandi í Rússlandi en þar er meira en þrettán ára munur á ævilengd karla og kvenna; karlar þar geta einungis vænst þess að verða 58,9 ára gamlir. Meðalævilengd karla í Rússlandi hefur raunar styst frá árinu 1990 en þá urðu rússneskir karlar 63,8 ára. Á sama tíma hefur ævilengd kvenna í Rússlandi styst úr 74,4 árum í 72,3.

Ungbarnadauði minni hér en annars staðar

Ungbarnadauði (dánir á fyrsta ári af 1.000 lifandi fæddum) hefur verið minni hér á landi en nokkurs staðar annars staðir í heiminum. Á árinu 2006 dóu hér einungis sex börn á fyrsta ári. Samkvæmt meðaltali áranna 2001-2006 er ungbarnadauði hér einugis 2,4 af 1.000 lifandi fæddum. Á heimsvísu koma Japanir næstir Íslendingum en þar er ungbarndauði 3,0. Í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi er ungbarnadauði á bilinu 3,1 til 3,3. Í öllum þessum löndum hefur ungbarnadauði minnkað um helming frá upphafi tíunda áratugarins. Í flestum ríkjum í sunnan og vestanverðri Evrópu er ungbarnadauði nú undir 5 af 1.000.

Víða í ríkjum Austur-Evrópu er ungbarnadauði talsvert meiri. Það er þó ekki algilt og nokkur dæmi eru um Austur-Evrópulönd þar sem ungbarndauði er litlu meiri en hér. Meðal þessara landa eru Slóvenía; þar deyja 3,7 af hverjum 1.000 lifandi fæddum börnum á fyrsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka