Öldur, koddar, eyru og hausar fyrir 52 milljónir króna

Framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt aðgerðaáætlun vegna endurbóta á vástöðum á árinu 2007. Samtals er áætlaður kostnaður við endurbætur vástaða rúmar 52 milljónir króna, sem er í samræmi við umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar 2002-2007.

Að sögn Stefáns Agnars Finnssonar, yfirverkfræðings á mannvirkjaskrifstofu Framkvæmdasviðs, er stuðst við tölfræði um slys í hverfum borgarinnar við val á verkefnum, en einnig tekið tillit til óska íbúa um aðgerðir. Aðgerðirnar stuðla meðal annars að öryggi gangandi vegfarenda með því að draga úr umferðarhraða og koma í veg fyrir óþarfa akstur í gegnum íbúðahverfi, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.

Öldur, koddar, eyru og hausar

Á verkefnalistanum ber mest á öldum, sem í daglegu tali eru nefndar hraðahindranir. Koddar líkjast öldum að öllu leyti nema að þeir ná ekki út í götukant beggja vegna. Þeir eru ódýrari í framkvæmd, þar sem þeir stoppa ekki vatnsrásina og því þarf ekki að setja sérstök niðurföll eins og ef um öldu væri að ræða.

Eyru eru þrengingar við gatnamót, sem stytta leið gangandi vegfarenda yfir götu og auka útsýni þeirra með því að afmarka bílastæði í hæfilegri fjarlægð frá gatnamótum.

Hausar gegna svipuðum tilgangi og eyru. Þeir eru einnig þrengingar ætlaðar gangandi vegfarendum, en eru ekki tengdir gatnamótum. Vástaðir eru þeir staðir í gatnakerfinu þar sem óeðlilega mörg slys eða óhöpp hafa orðið.

Ný verkefni á árinu 2007 - áætlaður kostnaður tæplega 23 milljónir króna:
1. Árskógar, miðeyja og niðurtektir.
2. Birkimelur, steinlögð alda.
3. Bryggjuhverfi, rampi frá Gullinbrú, malbikuð alda.
4. Egilsgata austan Barónsstígs, tvær malbikaðar öldur.
5. Einarsnes (Gnitanes - Bauganes), malbikuð alda.
6. Eiríksgata (Barónsstígur - Þorfinnsgata), tvær malbikaðar öldur.
7. Engjavegur, ein steinlögð alda í beygju.
8. Langholtsvegur sunnan Ásvegar, steinlögð alda.
9. Laugarásvegur (Sunnuvegur-Langholtsvegur), steinlögð alda og haus.
10. Leifsgata, tvær malbikaðar öldur.
11. Marteinslaug, vegrið.
12. Naustabryggja, lítið hringtorg. 13. Rauðarárstígur (Njálsgata - Háteigsvegur), alda endurgerð sem steinlögð alda.
14. Síðumúli (Selmúli - Fellsmúli), malbikuð alda á móts við Síðumúla 28 og steinlögð alda við Selmúla.
15. Skipholt, tvær öldur með hausum og miðeyja við Bolholt.
16. Skógarsel/Árskógar, steinlögð alda austan gatnamóta.
17. Suðurfell, steinlögð alda við undirgöng.
18. Súðarvogur (Knarrarvogur - Tranavogur), malbikuð alda.

Eldri verkefni á árinu 2007 - Verkefni sem komust ekki til framkvæmda vegna mikilla anna hjá verktökum á síðasta ári - áætlaður kostnaður tæplega 30 milljónir króna:
Ármúli (Vegmúli - Selmúli), tvær malbikaðar öldur.
Goðheimar, malbikuð 30 km alda móts við Goðheima 12-14.
Sæbraut/Holtavegur, lagfæra hlykk.
Sæbraut /Langholtsvegur, búnaður fyrir eftirlitsmyndavélar.
Skaftahlíð, tvær malbikaðar hraðahindranir við Skaftahlíð 4 og 12.
Þingholt, 6 koddar.
Bakkastaðir, frágangur á þrengingum.
Bæjarháls/Klettháls, miðeyja - útvíkkun götu.
Hamrahlíð, steinlögð alda móts við Bogahlíð og steinlögð alda við menntaskóla.
Mjölnisholt, eyra og merking bílastæða.
Stakkahlíð, malbiksalda endurgerð sem steinlögð alda.
Vesturgata, eyru og steinlagðar upphækkanir.
Ægisíða, miðeyjar, hausar og stígtengingar á móts við Ægissíðu 70 og 84.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert