Segir refsiheimildir ekki fyrir hendi í hlutafélagalögum

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að yfirlýsingar yfirmanns fyrrum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í vitnaleiðslum í Baugsmálinu gæfu í raun tilefni til að fara fram á að stórum hluta ákæru í Baugsmálinu yrði vísað frá. Gestur sagði að það myndi hann hins vegar ekki fara fram á því hann vildi fá sýknu á málinu.

Gestur sagði m.a. að ekki væri hægt að refsa einstaklingum á grundvelli 104. greinar hlutafélagalaga þar sem í henni væri ekki nægilega skýr refsiheimild. Vísaði Gestur m.a. til nýlegs dóms Hæstaréttar þar sem vísað var frá ákæru á hendur fyrrverandi og núverandi forstjórum olíufélaga, m.a. á þeirri forsendu að refsiheimildir gagnvart einstaklingum skorti í samkeppnislögum.

Jón Ásgeir er í ákæruliðum 2.-9. í ákærunni ákærður fyrir brot á 104. grein hlutafélagalaga með því að láta Baug, sem var skráð almenningshlutafélag á markaði á þessum tíma, veita einstaklingum og félögum lán, m.a. til að kaupa hlutafé í Baugi.

Gestur sagði hins vegar, að 104. grein hlutafjárlaga væri í grunninn eins og refsiheimildin var í samkeppnislögum áður en breytingar voru gerðar á þeim lögum á Alþingi fyrr í þessum mánuði. Sagði Gestur, að refsiheimildir yrðu að vera orðaðar með skýrum hætti og ef refsiheimild virðist ekki hafa veitt ákærðum viðvörun um refsiverða háttsemi þá stæðu rök til þess að dómstóll teldi refsiheimildina í heild sinni andstæða meginreglu um skýrleika refsiheimilda.

Gestur sagði, að lýsingin í lögunum næði ekki til þess, að tilteknum stjórnendum félags væri óheimilt að veita lán heldur félaginu sjálfu og það væri sama uppbygging og var í samkeppnislögunum. Þessi regla hefði verið samin með sjónarmið félagaréttar í huga en ekki refsiréttar.

Sagði Gestur að aldrei hefði verið dæmt hér á landi á grundvelli 104. greinar hlutafélagalaga og aldrei ákært, ekki heldur í Danmörku, þar sem sama regla væri til. Sýkna ætti Jón Ásgeir af öllum refsikröfum á grundvelli 104. hlutafjárlaga.

Þá sagði Gestur að gera yrði skýran greinarmun á kröfum, sem stofnist til í viðskiptum og eiginlegum lánum. Gestur sagði að lán í skilgreiningu laganna væri það þegar fjármunir væru afhendir án nokkurra annarra skilyrða en að þeir verði endurgreiddir. Um leið og önnur skilyrði fylgdu, svo sem um að viðtakandi eigi að nota féð í tilteknum tilgangi, t.d. til að kaupa nýtt hlutafé, væri þetta orðið þáttur í viðskiptum og skilgreiningin félli úr gildi. Þetta ætti við um þau viðskipti, sem ákært væri fyrir í þessu máli.

„Ef það eru hagsmunir Baugs sem eru hafðir í huga þegar lánið er veitt er það klárlega ekki lán. Sama á við þegar lánsmóttakandinn hefur ekki frjálsar hendur um ráðstöfun fjárins,” sagði Gestur og bætti við að þrengri skilgreining á venjulegum viðskiptalánum ætti ekki við.

Sagði hann að Jón H. B. Snorrason, sem stýrði rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, hefði lýst því yfir í vitnaleiðslum í málinu, að ekki hefði verið rannsakað hvort um væri að ræða nauðsynleg viðskipti heldur hefðu verið rannsakaðar hinar ætluðu ólöglegu lánveitingar, sem þeim voru samfara. Þetta sagði Gestur, að ætti í raun að leiða til frávísunar ákæruliðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert