Segja afsláttarmálningu aldrei hafa verið selda á upprunalegu verði

Verslun BYKO við Hringbraut.
Verslun BYKO við Hringbraut. Mbl.is/ Ómar

Eigendur Múrbúðarinnar ehf. hafa hafið auglýsingaherferð gegn fyrirtækjum, sem þeir kalla „Múskó“-fyrirtæki og rugli neytendur í ríminu með endalausum tilboðum, afsláttum og útsölum, þar sem illmögulegt sé að sjá hvort um raunverulega verðlækkun sé að ræða eða ekki. Upplýsingar séu ófullnægjandi eða hreinlega villandi, afsláttur m.a auglýstur hjá BYKO af málningu sem hafi aldrei verið seld á upprunalegu verði. Það sé brot á lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

Múrbúðin lýsir nú eftir kvittun frá BYKO sem sýnir að viðkomandi hafi borgað 7.399 kr. í BYKO fyrir ákveðna tegund af málningu, sem BYKO auglýsir á lækkuðu verði, 4.990 kr. Framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, Karl Ottó Karlsson, segir sína starfsmenn hafa fylgst vel með þessum tilboðum byggingarvöruverslana, þar sem strikað er yfir upprunalegt verð og afsláttarverð auglýst. Fjölda varanna hafi þeir aldrei séð til sölu á auglýstu, upprunalegu verði.

„Hvernig er hægt að gefa 50% afslátt af nýrri vöru? Geturðu sagt mér það?“ spyr Karl. „Af hvaða verði ertu að gefa 50% afslátt? Þetta er klárlega brot á lögum.“ Á hann þar við lög nr. 57 frá árinu 2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

Í þeim lögum segir í II. kafla, 6. grein, að „óheimilt sé að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar.“ Í 14. gr. segir svo: „Útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, má því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða.“

„Við erum ekki að segja neitt sem stenst ekki, við höfum sannanir fyrir þessu,“ segir Karl. Sannanirnar séu meðal annars auglýsingar frá þessum fyrirtækjum, sem Múrbúðarmenn segja brjóta lög. Karl segir þessi sífelldu tilboð svokallaðra Múskó-verslana hafa leitt til þess að viðskiptavinir komi margir í Múrbúðina leitandi að afsláttarvörum. Þeir spyrji bara um afslátt af vörum en ekki verð. Þetta sýni að verðvitund manna hafi brenglast, nú spyrji menn bara hversu mikinn afslátt þeir fái af vörunni en ekki hvað hún kosti. Menn reyni að prútta vöruna niður.

Ekki náðist í Ásdísi Höllu Bragadóttur, framkvæmdastjóra BYKO og talsmann fyrirtækisins í þessu máli, þar sem hún er stödd erlendis.

Lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert