Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagðist í gær telja að sú tillaga sem Ístak og Sjóvá hafa lagt fram um Suðurlandsveg væri áhugaverð. Afköst vegar af þessari gerð væru örugglega nægjanleg. Ístak telur hægt að leggja 2+2-Suðurlandsveg fyrir 7,5–8 milljarða, en þar er gert ráð fyrir hringtorgum í meira mæli en Vegagerðin reiknaði með í sinni tillögu.
„Ég fagna þessum mikla áhuga sem kemur fram núna hjá fjárfestum og verktökum á því að koma inn í vegagerð á forsendum breyttra vegalaga. Með breyttum vegalögum voru skapaðar forsendur til að bjóða út vegagerð í einkaframkvæmd þar sem einkaaðilar geta spreytt sig í hönnun, framkvæmdum o.s.frv."
Sturla sagði ljóst að verkið yrði boðið út og Ístak og Sjóvá fengju tækifæri til að bjóða í, en fyrirtækin væru búin að undirbúa sig og velta þessu vel fyrir sér.
Sturla sagði að unnið væri að undirbúningi framkvæmda við Suðurlandsveg. Hann sagði nauðsynlegt að sveitarfélögin kláruðu vinnu við skipulag á svæðinu, en þau væru að vinna að þessu í samvinnu við Vegagerðina. Skipulagið snerist m.a. um tengingu við hliðarvegi.
Vegagerðin ætlar að skoða tillögur Ístaks og Sjóvár um 2+2-Suðurlandsveg. Jón Helgason, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Vegagerðarinnar, segir að hægt sé að reikna út kostnað við veginn út frá mismunandi forsendum. Suðurlandsvegur sé aðalflutningsæð og það sé spurning hvaða kröfur menn vilji gera um greiðfærni á slíkum vegi. Vegagerðin vinni með þrjá staðla fyrir fjögurra akreina veg og starfsmenn hennar hafi velt fyrir sér kostum þess að hafa styttra á milli akstursleiðanna. Í tillögu Ístaks er gert ráð fyrir að 2,5 metrar séu á milli akstursleiða, en í tillögu Vegagerðarinnar er miðað við 11 metra.
Jón segir að það séu ýmsir þættir sem tengjast þessari vegagerð sem eigi eftir að skoða betur. Það þurfi m.a. að skoða tengingu hliðarvega við Suðurlandsveg. Það sé því talsverð skipulagsvinna eftir.