Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrum alþingismaður, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann gerir athugasemdir við yfirlýsingu Alcoa vegna stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Í yfirlýsingunni segir að Íslendingar fái nú á færibandi sýnishorn af vinnuaðferðum fjölþjóðafyrirtækja sem leitast við að kaupa sér umhverfisvæna ímynd til að breiða yfir náttúruspjöll og mengun.
Í yfirlýsingu hans segir m.a. að fáeinum dögum fyrir atkvæðagreiðslu um margföldun á umsvifum Alcan í Hafnarfirði hafi verið send út tilkynning um að auðhringurinn sé reiðubúinn að greiða fyrir því að raflínur í grennd við álverksmiðjuna verði settar í jörð svo fremi að Hafnfirðingar samþykki nýja 280 þúsund tonna risaálbræðslu við hlið þeirrar gömlu.
Þá segir að staðhæfingar um stuðning fyrirtækisins við stofnun þjóðgarðsins vísi sennilega til 20 milljón króna fjárstyrks sem aðstoðarforstjóri Alcoa afhenti umhverfisráðherra Íslands þann 15. maí 2006. Það fylgi hins vegar ekki sögunni að skilningur Alcoa á sjálfbærni hefur einkum birst Íslendingum í því að fyrirtækið hafi hlaupið undir bagga með íslenskum ráðamönnum við að koma á fót Kárahnjúkavirkjun og umturnað austfirsku samfélagi með byggingu álbræðslu á Reyðarfirði.