Hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrar hófst í dag á vegum Reykjavíkurborgar. Afrakstur keppninnar verður kynntur í nóvember eftir að dómnefnd hefur metið tillögur. Gert er ráð fyrir Reykjavíkurborg semji við einn eða fleiri af vinningshöfum um skipulagningu hluta af Vatnsmýrarsvæðinu í kjölfar keppninnar.
Í fréttatilkynningu kemur fram, að allar nánari upplýsingar um hugmyndasamkeppnina sé að finna á sérstökum vef keppninnar, www.vatnsmyri.is, en þar segist formaður dómnefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, m.a. vonast til að hugmyndasamkeppni „veki áhuga fjölmargra þátttakenda og markmið þeirra allra sé það sama og borgaryfirvalda og borgarbúa - að búa til enn betri borg - með öflugum og fjölbreyttum hugmyndum fyrir framtíðarborgina Reykjavík.“