Kostnaður vegna sérfræðiþjónustu 55 milljónir

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, í dómssalnum.
Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, í dómssalnum. mbl.is/G. Rúnar

Aðalmeðferð í Baugsmálinu lauk á sjötta tímanum í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir að settur ríkissaksóknari og verjendur sakborninga höfðu flutt seinni ræður sínar í munnlegum málflutningi. Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, lagði m.a. fram sakarkostnaðaryfirlit þar sem kom fram, að kostnaður við að kaupa sérfræðiþjónustu vegna rannsóknar málsins og vegna vitna nam 55 milljónum króna. Inni í þeirri tölu eru ekki laun saksóknara og aðstoðarmanna hans.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, sagði að af hans hálfu hefði 1150 klukkustundum verið varið í vörn málsins. Það er hins vegar dómsins að ákveða málsvarnarlaun og sakarkostnað.

Sigurður Tómas sagði m.a. í síðari ræðu sinni, að refsiheimild vegna brota á 104 grein hlutafélagalaga væri skýr og hafnaði málflutningi Gests, sem sagði að greinin væri of óskýr til að byggja mætti á henni refsingu einstaklinga.

Bæði Gestur og Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, sögðu í varnarræðum sínum í dag, að ef svo ólíklega færi að skjólstæðingar þeirra yrðu fundnir sekir um eitthvað í málinu gætu þeir ekki starfað sem stjórnendur fyrirtækja í 3 ár á eftir vegna ákvæða hlutafélagalaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert