Kostnaður við raflínur í jörðu í Vallarhverfi nemur 800 milljónum

Samkomulagi milli Landsnets og Alcan felur í sér að raflínur við Vallarhverfið í Hafnarfirði verða fjarlægðar ásamt stórum hluta spennustöðvarinnar við Hamranes. Aðrar loftlínur sem nú standa ofan við byggðina verða settar í jörð við Kaldárselsveg að spennustöðinni en stöðin mun að loknum breytingum eingöngu þjónusta íbúðarbyggð á svæðinu.

Sú lausn sem valin var er 800 milljónum krónum dýrari en ódýrasta lausnin sem hægt hefði verið að fara. Kostnaðurinn liggur í jarðstrengum, tengivirki og fleiru. Ekki fengust upplýsingar frá Landsneti um heildarkostnað við framkvæmdirnar allar. Heildarlengd nýrra háspennuloftlína, sem byggðar verða í lögsögu Hafnarfjarðar, er samtals tæplega 21 km. Samtals verða lagðir um 9,3 km af nýjum jarðstrengjum. Aflagðir verða samtals rúmir 17 km í loftlínum.

Tvær 245 kV loftlínur og ein 145 kV lína liggja í dag sunnan við Vallahverfi. Þessar línur verða teknar niður við Kaldárselsveg og settar í jörðu. Lína sem liggur á Suðurnes kemur aftur upp úr jörðinni sunnan við álverið. Lagningu Búrfellslínu verður breytt þar sem hún tengist álverinu. Hún mun liggja í nýtt tengivirki við Hrauntungur og þaðan í álverið. Þessi lína verður áfram loftlína.

Hafnarfjarðarbær mun ekki bera kostnaðinn af breytingunum en þær eru háðar því að stækkun álversins verði að veruleika, enda eru aukin raforkukaup álversins forsenda þess að breytingin verði. Með samkomulaginu er komið mjög til móts við óskir bæjaryfirvalda og íbúa á svæðinu um að lagðar verði raflínu í jörðu.

Þær raflínur sem liggja munu að álverinu eftir breytingu verða mun fjær byggðinni en nú er. Byggð verður ný spennistöð við Hrauntungur, á landsvæði sem ráðgert er að verði framtíðariðnaðarhverfi Hafnarfjarðar, en að hinni nýju spennustöð verður ein loftlína frá Hamranesi. Vegna aukinna raforkuflutninga til álversins þarf að bæta við einni raflínu í flutningskerfi Landsnets (Kolviðarhólslínu 2) sem liggja mun ofan af Hellisheiði samhliða Búrfellslínu 3 að nýrri spennistöð við Hrauntungur. Flutningsgeta Búrfellslínu 3 verður einnig aukin og umhverfisrask þannig lágmarkað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert