Kvittun fyrir málningarkaupum kom í leitirnar

Múrbúðin segir, að leit að kvittun fyrir málningarkaupum hjá BYKO upp á 7399 krónur hafi borið þann árangur að ein kvittun barst. Viðskiptavinur BYKO hafi greitt þessa upphæð í júní fyrir 10 lítra af innimálningu sem BYKO hafi auglýst undanfarna mánuði á tilboði á 4990 krónur.

Múrbúðin segist hafa haft rökstuddan grun um að yfirstrikaða verðið á málningu BYKO væri tilbúningur til þess eins að villa neytendum sýn og fá þá til að halda að tilboðsverðið 4990 krónur væri mjög gott. Yfirstrikaða verðið var 7399 krónur og bauð Múrbúðin þeim sem ætti kvittun fyrir kaupum á því verði helgarferð fyrir tvo til London.

Í tilkynningu frá Múrbúðinni segir, að þar sem kvittun hafi komið í leitirnar, sem sýni að BYKO hafi a.m.k. einu sinni selt fyrrgreinda málningartegund á yfirstrikaða verðinu, sé ljóst að þetta verð hafi einhvern tíma verið til. Það breyti hins vegar ekki gagnrýni Múrbúðarinnar á tilraunir BYKO til að villa um fyrir neytendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert