Óheimilt að bæta virðisaukaskatti ofan á tilboð

Talsmaður neytenda vekur á heimasíðu sinni athygli á nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu, að iðnaðarmanni sé óheimilt að bæta virðisaukaskatti ofan á tilboð nema verkkaupi hafi vitað af því að skatturinn væri ekki innifalinn. Einnig sé hafnað akstursgjaldi og verkfæragjaldi sem reynt var að bæta við.

Í dómnum er vitnað til laga um þjónustukaup þar sem m.a. er kveðið á um að í tilgreindu verði skulu innifalin öll opinber gjöld nema neytandi hafi sannanlega haft vitneskju um að þau væru það ekki.

Í dómnum er einnig fjallað um verkfæragjald sem viðkomandi iðnaðarmaður innheimt. Að mati dómara bar verktakanum að tilgreina það sérstaklega í verðáætlun, ef hann ætlaði sér að gera sérstaka kröfu um notkun eða slit á verkfærum í hans eigu.

Talsmaður neytenda segir, að þetta séu sannfærandi forsendur og hætt sé við að margir neytendur hafi verið hlunnfarnir með sambærilegri reikningagerð þar sem þeir þekktu ekki rétt sinn eða höfðu ekki þrek til að standa gegn slíkum kröfum. Af þessu megi ráða að neytndur geti auðveldlega staðið á rétti sínum og fyrirbyggt vandræði.

Þá er einnig vakin athygli á þeirri niðurstöðu dómarans, að neytendur eigi að njóta afsláttar af vörum sem iðnaðarmaður kaupir fyrir þá í vinnutíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert