Skipulagðar frístundabyggðir rúma allt að 64 þúsund frístundahús

Sumarbústaður í Grímsnesi.
Sumarbústaður í Grímsnesi.
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
Frístundahúsum gæti fjölgað um tugi þúsunda á Suður- og Vesturlandi miðað við þau svæði sem hafa verið skipulögð sem frístundabyggðir. Frístundahúsum hefur fjölgað um rúman þriðjung síðasta áratug og húsin stækkað margfalt. Álags af ýmsu tagi er farið að gæta í frístundabyggðum og er lítið gert til að sporna við því, að sögn Ólafs Á. Jónssonar, sérfræðings á framkvæmda- og eftirlitssviði Umhverfisstofnunar.

Ólafur hélt erindi um frístundabyggðir á ársfundi Umhverfisstofnunar 27. mars sl. Þar benti hann á að 1996 voru um 7.600 frístundahús hér á landi en voru orðin 10.400 í apríl í fyrra. Tæpur helmingur frístundahúsa er á Suðurlandi og 35% allra frístundahúsa í landinu eru í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð.

Samkvæmt samþykktum skipulagsáætlunum hinn 1. október sl. var gert ráð fyrir samtals um 32 þúsund hektara, eða 320 km2, frístundabyggðum í 19 sveitarfélögum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Í Árnessýslu einni var gert ráð fyrir um 20 þúsund hektara frístundabyggðum. Þar af er gert ráð fyrir um 11.500 hektara frístundabyggðum í Grímsnes- og Grafningshreppi og 4.850 hektara frístundabyggðum í Bláskógabyggð. Algeng stærð lóða frístundahúsa er frá hálfum til eins hektara. Ólafur benti á að gangi skipulagsáætlanir eftir gætu frístundahús orðið allt að 64 þúsund í fyrrnefndum 19 sveitarfélögum á Suður- og Vesturlandi.

Húsin fara stækkandi

Ákvæði byggingareglugerðar um hámarksstærð frístundahúsa og efnisval voru felld niður 1998. Þetta var mikil breyting frá því að frístundahús máttu ekki vera stærri en 50–60 m2 og aðeins úr timbri. Ólafur tók dæmi um stærðarkvaðir í skipulagsskilmálum frístundabyggða. Algengt er að frístundahús megi nú vera 120–300 m2. Oft er gert ráð fyrir 25–50 m2 gestahúsi að auki. Dæmi er um skipulagstillögu frístundabyggðar þar sem samanlagður byggingarflötur á einni lóð getur verið allt að 445 m2 í fjórum byggingum, frístundahúsi, gestahúsi, bílageymslu og hesthúsi. Nýlega var deiliskipulagi breytt og hámarksstærð frístundahúss aukin úr 380 m2 í 496 m2. Þar var og gert ráð fyrir 64 m2 bílskúr og 86 m2 gestahúsi.

Mikils og margs konar álags er farið að gæta í fjölmennum frístundabyggðum. Ólafur benti t.d. á að frístundabyggðir væru oft staðsettar í eldhraunum sem njóta verndar og náttúrulegum birkiskógum. Eins eru dæmi um frístundabyggðir í votlendi og á svæðum á náttúruminjaskrá. Ólafur sagði að með frístundabyggðum yrðu þessi svæði fyrir álagi. Hefur Umhverfisstofnun bent sveitarstjórnum á nauðsyn þess að taka frá sérstæð náttúruminjasvæði til varðveislu. Þá nefndi Ólafur að frárennsli frá frístundahúsum geti valdið mengun í umhverfinu. Einnig veldur aukin umferð að og frá frístundabyggðum, ekki síst á álagstímum, talsverðu álagi og getur skapað ýmiss konar hættu.

Í hnotskurn
» Algengar stærðir frístundahúsa í skipulagsskilmálum eru 120–300 m 2 . Oft er gert ráð fyrir 25–50 m 2 gestahúsi að auki.
» Skipulagsáætlanir gera ráð fyrir frístundabyggð á alls 32 þúsund hekturum (320 km 2 ) á Suður- og Vesturlandi.
» Miðað við algenga stærð lóða gætu rúmast þar allt að 64.000 frístundahús.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert