Verjandi Jóns Geralds: „Fráleit og galin staða“

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.

Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds Sullenberger í Baugsmálinu, lauk málflutningi sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og krafðist þess að Jón Gerald yrði með öllu sýknaður og ákærunni á hendur honum vísað frá dómi. Sagði Brynjar það rangt, er ýjað hefði verið að í fjölmiðlum og jafnvel líka í réttinum, að Jón Gerald hefði játað sök.

Jón Gerald hefði vissulega viðurkennt að hafa útbúið tilhæfulausan kreditreikning upp á 62 milljónir króna, en hann hefði aftur móti ekki vitað til hvers ætti að nota reikninginn, og hefði ekki haft neinar upplýsingar um að ætti að nota hann í bókhaldi Baugs. Það væri í sjálfu sér ekki refsivert að útbúa tilhæfulausan reikning, en aftur á móti mætti deila um hvort það hvað gert væri við reikninginn væri refsivert.

Ennfremur sagði Brynjar að reikningurinn hefði ekki verið grundvöllur þeirrar tekjufærslu í bókhaldinu sem ákært er út af. Minnti Bryjar á að umræddur reikningur hefði verið sendur 30.8. 2001, en í tekjufærslunni hefði verið talað um kreditreikninga frá erlendum birgjum dagsetta 30.6., og því væri ljóst að sú færsla hefði verið bókuð samkvæmt fyrirmælum, en ekki umræddum reikningi.

Brynjar sagði ennfremur að refsiheimild væri ekki til staðar þar sem Jón Gerald hefði útbúið reikninginn í Bandaríkjunum og væri bandarískur ríkisborgari með lögheimili þar í landi. Saksóknari hefði ekki lagt fram nein gögn um að það væri sambærilegt ákvæði í bandarískum lögum, og því væri óljóst hvort þessi verknaður væri refsiverður í Bandaríkjunum. Refsing yrði að byggjast á refsinæminu í Bandaríkjunum, þar sem brotið hafi verið framið þar.

Brynjar krafðist þess aukinheldur að ákæruliðnum yrði vísað frá dómi á þeim forsendum að í lögreglurannsókn sem fram fór áður en Jón Gerald var ákærður hefði hann haft réttarstöðu vitnis, og rætt við lögregluna á þeim grundvelli. En þegar settur saksóknari tók við málinu og gaf út aðrar ákærur hefði Jón Gerald einfaldlega verið kvaddur til lögreglunnar og sagt að hann hefði nú réttarstöðu sakbornings og spurður hvort allt væri rétt sem hann hefði sagt í fyrri rannsókninni.

Þessu hefði Jón Gerald játað og þar með hefði ákæra á hendur honum verið gefin út. Hefði hann aftur á móti neitað því að framburðurinn hefði verið réttur hefði hann þar með játað á sig sök. Þetta væri „algerlega fráleit og galin réttarstaða“. Vísaði Brynjar í dóm Hæstaréttar yfir olíuforstjórunum, þar sem þeir voru sýknaðir vegna þess að réttarstaða þeirra annarsvegar hjá Samkeppnistofnun og lögreglu hinsvegar þóttu óljósar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert