130 milljónir til viðbótar í þróunarsjóð EFTA

Árleg útgjöld Íslendinga í þróunarsjóð EFTA munu aukast um 130 milljónir króna, en á móti kemur að tollfrjáls kvóti á innflutning á humri og karfa til landa Evrópusambandsins eykst.

Þetta er meðal annars niðurstaða af samningaviðræðum EFTA-landanna við Evrópusambandið vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins í framhaldi af inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í ESB, en skrifað var undir bráðabirgðasamkomulag vegna þessa í gær.

Samningaviðræður hafa staðið yfir frá því í júlí í fyrrasumar og hafa verið erfiðar vegna kröfu Evrópusambandsins um fjárframlög EFTA-landanna til fátækari ríkja sambandsins, í þessu tilviki þeirra tveggja ríkja sem nú voru að bætast við, þ.e.a.s. Rúmeníu og Búlgaríu. Samkomulagið felur í sér að EFTA-ríkin munu auka framlög sín í þróunarsjóð EFTA um samtals 72 milljónir evra eða tæpa 6,5 milljarða króna fram til loka apríl 2009. Hlutur Íslands er um 130 milljónir króna á ári, en tollfrjáls markaðsaðgangur fyrir íslenskar sjávarafurðir eykst jafnframt og verður um 570 tonn fyrir humar annars vegar og hins vegar fyrir karfaflök sem nemur 750 tonnum.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra segir í fréttatilkynningu að niðurstaða viðræðnanna sé vel viðunandi og það felist tækifæri í því fyrir íslenskt atvinnulíf að sækja fram á þessum nýju mörkuðum í Rúmeníu og Búlgaríu. Þá sé einstaklega mikilvægt að hafa náð fram auknum markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir, sérstaklega fyrir humar sem hafi borið háa tolla.

Fagnaðarefni

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sagði að niðurstaða samningaviðræðnanna væri góðar fréttir og fagnaðarefni, en Vinnslustöðin vinnur mikinn humar og er einnig talsvert í karfa.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert