Áhersla á heimavarnir

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
Eftir Örlyg Stein Sigurjónson

orsi@mbl.is

Öryggis- og varnarmál eru nú enn frekar en áður innanríkismál fremur en utanríkismál. Meginstoðir landvarnastefnu Íslands eru vissulega enn sem fyrr varnarsamningurinn við Bandaríkin og þátttaka landsins í NATO. Þetta sagði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs í gær.

"Við gæslu öryggis borgaranna skiptir samstarf við aðrar stofnanir en hermálayfirvöld austan hafs og vestan hins vegar meira máli en fyrr í sögu okkar, þegar lagt er mat á hættur, sem að kunna að steðja," sagði ráðherra. Sagði hann þessar staðreyndir birtast í samkomulagi sem gert var við Bandaríkjamenn síðastliðið haust, þar sem lögð væru á ráðin um samvinnu við bandarísku strandgæsluna, alríkislögregluna, tollgæslu og landamæraverði.

"Öryggisgæsla í þágu flugs og siglinga hefur flust í hendur borgaralegra yfirvalda hér og annars staðar með alþjóðareglum um flugvernd og siglingavernd. Bandaríska heimavarnarráðuneytið kemur að þeim málum en ekki varnarmálaráðuneytið, svo að dæmi sé tekið," sagði Björn.

Ráðherra sagði inntakið í samstarfinu um öryggismál við Bandaríkjamenn hafa breyst verulega með hinu nýja samkomulagi á grundvelli varnarsamningsins. Hefði áherslan flust frá landvörnum í hefðbundnum skilningi þess orðs til heimavarna, þar sem borgaralegar stofnanir kæmu sífellt meira til sögunnar.

Væri litið til samstarfs Evrópuríkja væri þróunin hin sama. Innan ramma Schengensamstarfsins væri sífellt meiri áhersla lögð á lögreglusamvinnu í þágu aukins öryggis. "Á það hefur verið bent, að Evrópusambandið sé samstarfsaðili bandaríska heimavarnarráðuneytisins og slík borgaraleg samvinna í þágu öryggis skipti hinn almenna borgara jafnvel meiru eins og málum sé nú háttað en herafli grár fyrir járnum."

Frumvarp um almannavarnir

Björn sagði frumvarp til nýrra almannavarnalaga nú fullsmíðað. Ríkisstjórnin hefði lýst því yfir að til að efla almennt öryggi yrði í tengslum við endurskoðun laganna komið á fót miðstöð, þar sem tengdir yrðu saman allir aðilar sem vinna að öryggismálum innanlands.

Björn gat þess einnig að sér hefðu verið kynntar tillögur embættis ríkislögreglustjóra um 240 manna launað varalið lögreglu og almannavarna vegna sérstaks löggæsluviðbúnaðar. Með þessum liðsafla gæti lögreglan kallað út um 1.000 manna þjálfað lið til verkefna á sínu sviði en auk þess yrði síðan treyst á björgunarsveitir og aðra.

Í hnotskurn
» Með 240 manna varaliði lögreglunnar gæti lögreglan kallað út um 1.000 manna þjálfað lið.
» Stofnkostnaður yrði 244 milljónir kr. og árlegur rekstrarkostnaður 222 milljónir kr.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka