Borun aðrennslisganga Jökulsárveitu hafin

Borinn sem er notaður
Borinn sem er notaður mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Bor 2 fór að snúast að nýju í gærkvöldi og hóf þar með borun aðrennslisganga Jökulsárveitu, síðasta áfanga verksins sem risaborunum þremur var ætlað að takast á við í Kárahnjúkavirkjun.

Borinn og tilheyrandi færibönd unnu eins og ætlast var til, að því er fram kemur á vef Landsvirkjunar. Þá blasir við að ljúka lítilsháttar tilfæringum varðandi járnbrautarteina tækjanna áður en borun hefst af fullum krafti á þrískiptum vöktum strax eftir helgina.

Bor 2 vann í aðrennslisgöngunum milli Hálslóns og Fljótsdals frá 2004 til 1. október 2006 þegar hann var stöðvaður, dreginn til baka og tekinn í sundur. Borinn var síðan settur saman að nýju með tilheyrandi viðhaldi og nú er hann sem sagt kominn á skrið á nýjan leik til að bora ný göng úr væntanlegu Ufsarlóni.

Upphaflega var gert ráð fyrir að heilbora þarna tæplega 10 kílómetra en á dögunum samdi Landsvirkjun við Arnarfell ehf. um að bora og sprengja um 1 kílómetra til móts við bor 2. Það þýðir að borsins bíða þá 8,7 km og ætla má að það taki um 15 mánuði að bora þá leið eða með öðrum orðum fram á sumar 2008.

Færiböndin sem flytja grjótmulninginn frá bornum eru alls 3,3 km löng við upphaf verks.Böndin lengjast eftir því sem borinn þokast áfram og verða orðin 12 km að lengd í lok verks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert