Rúmlega 30 rollur voru felldar á bænum Neðsta Hvammi í Dýrafirði í gær. Kæra barst héraðsdýralækni í lok febrúar frá Dýraverndarsambandi Íslands vegna slæms aðbúnaðar og vannæringar kindanna. Var þá strax hafist handa við að bæta úr því sem mætti, en ekki tókst betur til en svo að fella þurfti ríflega helming þess fjár er var á bænum, en bóndinn hélt um 60 kindur, að því er segir í frétt á vef Bæjarins besta.
Í leysingum í vetur hefur flætt inn í fjárhúsin, en kindurnar voru á gólfinu þar sem undirlag var blautt og skítugt, en grindur sem þær höfðu verið á voru fjarlægðar í vetur eftir að þær brotnuðu. Nú á dögunum flæddi mikið magn vatns inn í húsið og taldi þá dýralæknir fullreynt að hafa kindurnar í húsinu. Hægt var að flytja hluta þeirra í annað hús á landareigninni, en það fé sem verst var farið var fellt.
Féð var illa á sig komið og segir Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir, í samtali við Bæjarins besta, það ólíklegt að það myndi ná sér úr þessu þar sem ærnar voru með lömbum, þær tóku illa fóðrun vegna vosbúðarinnar og þola þær það afar illa. Sigríður segir málið vera harmleik og reynt hafi verið að bæta úr málunum í samvinnu við bóndann á bænum, en í vikubyrjun hafi verið útséð með að bregðast þyrfti við með þessum hætti.
Nánar er fjallað um málið á vef Bæjarins besta