Geir: Ranghugmyndir að upptaka evru leysi öll vandamál

Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra mbl.is/ÞÖK

Geir H. Haar­de, for­sæt­is­ráðherra, sagði á árs­fundi Seðlabank­ans í dag, að sum­ir virt­ust halda að upp­taka evru í stað ís­lensku krón­unn­ar myndi leysa öll vanda­mál, jafnt hjá fyr­ir­tækj­um, heim­il­um sem op­in­ber­um aðilum.

„Hér er mikið af rang­hug­mynd­um á ferð. Í fyrsta lagi er ljóst að það er full­kom­lega óraun­hæft að tala um upp­töku evru án aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu. Um þetta eru kunn­áttu­menn sam­mála og hafa bent á ýmis dæmi þess að ákv­arðanir um ein­hliða upp­töku er­lends gjald­miðils sem heima­mynt­ar skorti þann trú­verðug­leika sem nauðsyn­leg­ur er fyr­ir hag­stjórn­ina.

Spurn­ing­in um form­lega upp­töku evru í stað ís­lensku krón­unn­ar er því spurn­ing um hvort við vilj­um ganga í Evr­ópu­sam­bandið. Þeirri spurn­ingu ætti flest­um að vera auðvelt að svara eft­ir út­komu hinn­ar nýju skýrslu Evr­ópu­nefnd­ar," sagði Geir.

Hann sagði að það lægi held­ur ekki fyr­ir, að upp­taka evr­unn­ar leysi ein­hver efna­hags­vanda­mál á Íslandi. Þvert á móti sé ljóst að ný vanda­mál kæmu í stað þeirra gömlu. Þá hefði nokkuð borið á þeim mis­skiln­ingi að upp­gjör á árs­reikn­ing­um ein­hverra fyr­ir­tækja í evr­um boði enda­lok ís­lensku krón­unn­ar. Því færi fjarri.

„Ég beitti mér fyr­ir því sem fjár­málaráðherra árið 2001 að lög­fest var heim­ild til þess að fyr­ir­tæki gætu leitað eft­ir því að færa árs­reikn­inga sína í öðrum gjald­miðli en krón­um að til­tekn­um skil­yrðum upp­fyllt­um. Með því var ekki verið að boða enda­lok krón­unn­ar held­ur ein­ung­is að koma til móts við eðli­leg­ar og sann­gjarn­ar ósk­ir fyr­ir­tækja um að mæta þeim breyttu aðstæðum sem fylgdu vax­andi viðskipt­um þeirra í út­lönd­um. Íslensk fyr­ir­tæki geta í dag gert sína árs­reikn­inga upp í hvaða mynt sem er upp­fylli þau sett skil­yrði. Flest sem það gera hafa valið Banda­ríkja­doll­ar," sagði Geir.

Hann sagði að málið snér­ist um að finna hag­kvæm­asta fyr­ir­komu­lag fyr­ir gjald­miðil, sem varðveiti efna­hagspóli­tískt sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og ger­ir Íslend­ing­um kleift að kljást við hagsveifl­ur hér á landi.

„Eng­in betri skip­an er á boðstól­um í dag en sú að viðhalda ís­lensku krón­unni, hvað sem síðar kann að verða. Seðlabank­an­um er með verðbólgu­mark­miði sínu ætlað að standa vörð um verðgildi henn­ar. Evr­an ger­ir eng­in krafta­verk fyr­ir hag­stjórn­ina. Það sem skipt­ir meg­in­máli er að hag­stjórn­in sjálf sé skyn­sam­leg," sagði Geir.

Ræða Geirs H. Haar­de

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert