Einungis þrír bátar stunda nú grásleppuveiðar frá Húsavík um þessar mundir en ekki með öllu útséð að þeim fjölgi kannski um 1-2 báta þegar líður á vertíðina. Fyrir nokkrum árum voru þeir vel á annan tuginn sem gerðir voru út á sleppuna en verð fyrir hrognin eru orðin svo lág að áhugi manna á veiðunum við slíkar aðstæður er hverfandi.
Einn þessara báta gerðir eru út í ár er Von ÞH og var hún að koma að landi síðdegis í dag þegar fréttaritari kíkti á lífið við höfnina. Sigurður Kristjánsson, sem gerir út Vonina, hefur jafnan haft tvo menn með sér á grásleppunnni en í ár rær hann einn.
"Það borgar sig varla að hafa menn með sér á þessu eins og verðin eru," sagði Sigurður og efaðist jafnvel um að hægt væri að fá menn með sér við þessar aðstæður, launin væru það léleg.