Meirihluti landsmanna telur að frumvarp stjórnarflokkanna um náttúruauðlindir í þjóðareign hafi dregið nokkuð eða mikið úr trausti á ríkisstjórninni, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup. Alls segjast 40,8% aðspurðra telja að frumvarpið hafi dregið nokkuð úr traustinu, og 22,1% að frumvarpið hafi dregið mikið úr því.
Rúm fjögur prósent segjast aftur á móti halda að frumvarpið hafi aukið mikið traust á stjórninni, og 14,8% að frumvarpið hafi aukið traustið nokkuð. Rúm 18% segja frumvarpið engu hafa breytt.
Lítill kynjamunur er á afstöðu þátttakenda, en mikill munur eftir því hvaða flokk þeir hyggjast kjósa. Þannig telur meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins, 51,4%, frumvarpið hafa aukið traust á stjórninni, og 25,8% kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda annarra flokka telur frumvarpið hafa dregið úr trausti á stjórninni.