Íbúar við Laugardal mótmæltu fyrirætlunum um að byggð yrðu tvö fjölbýlishús á grænu svæði í austanverðum Laugardalnum við Holtaveg á kynningarfundi fyrir íbúa í Langholtsskóla í gærkvöldi þar sem þessar fyrirætlanir voru til umræðu.
Hildur Björg Hafstein, formaður foreldrafélags Langholtsskóla, sagði að félagið væri algerlega andvígt byggingum á þessu græna svæði. "Það hefur verið svo þrengt að dalnum með byggingum og girðingum að okkur finnst komið nóg. Þetta er eitt af fáum opnum svæðum sem eru í rauninni eftir í Laugardalnum," sagði hún í samtali við Morgunblaðið að fundinum loknum.
Hún sagði að önnur svæði tilheyrðu annaðhvort íþróttafélögunum eða borga þyrfti sig inn á þau, eins og t.a.m. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. Þau skildu ekki heldur þá áráttu að byggja í dalnum, sem hefði verið skilgreindur sem mikilvægasta útivistarsvæði Reykvíkinga.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.