Umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, telur afar brýnt að leitað verði allra leiða til þess að beina frá vatnsverndarsvæðunum allri starfsemi sem getur valdið röskun eða mengun, jafnvel frá þeim jaðarsvæðum vatnsverndarinnar sem flokkast undir fjarsvæði. Þetta kom fram í ávarpi ráðherra á málþingi sem haldið er í dag um vötn og vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu og ástand og horfur þessara mála.
Að sögn Jónínu er samkvæmt gildandi svæðisskipulagi er vatnsverndarsvæðinu ofan höfuðborgarsvæðisins, sem myndar nánast samfellda heild, skipt upp í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði.
„Neysluvatn það sem veitt er til íbúa höfuðborgarsvæðisins er af háum gæðaflokki. Hollusta neysluvatnsins er ekki sjálfgefin. Vatnsverndarsvæðin hér ofan byggðar eru öll mjög lek. Það þýðir að spilliefni við yfirborð berast mjög auðveldlega ofan í vatnsgeyminn. Við vorum rækilega minnt á hversu lítið má út af bregða fyrr í þessum mánuði þegar vöruflutningabíll valt á vegi í Heiðmörk og nokkur olía flaut um."
Jónína lýsti sérstakri ánægju með áhuga og árvekni heilbrigðisumdæmanna sem eru vakin og sofin yfir vatnsverndarsvæðunum. „Það virðist heldur ekki veita af því skipulag nýrrar byggðar teygir sig stöðugt nær vatnsverndarsvæðum. Eins hafa í gegn um tíðina orðið árekstrar á milli hestafólks, skógræktar og landgræðslu, við þær hörðu reglur sem nauðsynlegt er að viðhafa í umgengni okkar við neysluvatnið.
Samvinna sveitarfélaganna, skýr langtímasýn með góðu og virku svæðisskipulagi eru þau tæki sem gagnast best í verndun og viðhaldi neysluvatnsauðlindarinnar. Svæðisskipulaginu hefur nýverið verið breytt og vatnsverndarsvæði verið minnkað um leið og vatnstaka við Vífilsstaðavatn hættir.
Þessi breyting er fyrst og fremst gerð til að koma fyrir nýrri byggð. Það eitt út af fyrir sig er umhugsunarefni. Engu að síður treysti ég því að sveitarfélögin í sameiningu gæti vel og hlúi að neysluvatnsauðlindinni hér skammt ofan byggðarinnar. Annað kemur vart til greina. Verkefnið er vandasamt, hagsmunaárekstrar eru til staðar og þeir mun áfram verða. Ómengað neysluvatn úr þessum nálægu brunnum varðar lífskilyrði tveggja þriggja hluta landsmanna," sagði umhverfisráðherra.
Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu Ræða umhverfisráðherra í heild