Það er heldur grámyglulegt um að litast þessa dagana í höfuðborginni og nú þegar borgin er að koma undan vetri má víða sjá drasl í trjám og beðum og þá þekur sandur suma göngustíga. Að sögn borgaryfirvalda eru hreinsunarstörfin hinsvegar hafin enda er stefna hennar að halda borginni hreinni og fagurri. Kostnaður við hreinsun gatna hefur t.d. aukist um 35-40% á milli ára, eða sem nemur um 50 milljónum kr. Þá hefur kostnaður við hreinsun opinna svæða aukist um 70-80% á milli ára eða sem nemur um 120 milljónum kr.
Að sögn Sighvatar Arnarssonar, sem veitir gatna- og eignaumsýslu framkvæmdasviðs borgarinnar forstöðu, er vorhreinsun gatna hafin. Henni lýkur ekki fyrr en um miðjan apríl vestan Elliðaáa og austan þeirra í byrjun maí. Stefnt var að því að hefja hreinsunarstörf þann 10. mars en sökum frostkafla sem kom seinkaði þeim um tvær vikur.
Samkomulag hefur verið gert við verktaka um hreinsun og nú mun hann farar fjórar yfirferðir yfir borgina í stað þriggja áður.
Sighvatur segir að nú sé búið að setja nýja ruslastampa í miðbæinn, sem eru mun stærri en þeir sem fyrir eru. Þá segir hann að unnið sé að endurskoðun á staðsetningu ruslastampa í öðrum hverfum borgarinnar.
Hvað varðar áramótin þá bendir Sighvatur á að í vesturbænum einum hafi borgarstarfsmenn hreinsað yfir 20 rúmmetra af rusli í tengslum við hátíðarhöldin.
Þá segir hann að það sé undir borgarbúum komið hvernig borgin líti út. Viðleitni borgarinnar dugi skammt.