Þegar búið er að telja öll atkvæði, sem greidd voru á kjörstað í íbúakosningu í Hafnarfirði um hvort stækka eigi álverið í Straumsvík höfðu 5860 greitt atkvæði gegn stækkun, eða rétt tæplega 51%, en 5638 voru fylgjandi stækkun eða rúmlega 49%. Eftir er að telja 1195 utankjörfundaratkvæði og gætu lokaniðurstöður legið fyrir eftir um það bil hálftíma.
Alls greiddu 12.752 manns atkvæði í kosningunum sem er 76,6% kjörsókn. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, sagði í kvöld að þessi mikla kjörsókn væri sigur fyrir lýðræðið og niðurstaðan í kosningunum verði bindandi fyrir bæjarstjórnina.
Greidd voru atkvæði um deiliskipulagstillögu sem gerir ráð fyrir því að álverið í Straumsvík verði stækkað.