Aprílgöbb stór og smá

Það hefur vafalaust ekki farið fram hjá neinum að í dag er 1. apríl og þá nýta menn tækifærið til þess að láta fólk hlaupa apríl með misjöfnum árangri. Google kynnti t.a.m. á vefsíðu sinni í dag nýja tækni sem gerir fólki kleift að tengjast netinu ókeypis í gegnum klósettlagnirnar svo lengi sem þeir eiga tölvu með WiFi-tengi.

Fréttastofa Útvarps greindi frá því í hádegisfréttum sínum að hundruð trjáplantna hafi fundist á lóð áhaldahúss Kópavogs. Fram kom í fréttinni að framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur sagðist gruna að trén hafi verið tekin úr Heiðmörk í vetur. Bæjarstjóri Kópavogs sagði það vera þvætting. Umrædd tré hafi verið fengin löglega. Hinsvegar liggi þau nú undir skemmdum og því geti fólk komið og keypt þau fyrir þúsund krónur stykkið.

Fréttavefurinn sudurland.is greindi frá því í dag að allt innbú Byrgisins yrði selt á opinberu uppboði sem halda átti á staðnum klukkan 14 í dag. Fram kom í fréttinni að meðal muna sem selja átti voru margskonar áhöld og tæki sem notuð voru við meðferðarstarfið. Í tilkynningu frá uppboðshaldara var viðkvæmum ráðið frá að mæta, sagði í fréttinni.

Á vef Skessuhorns var sagt frá því að hvalur hefði synt upp Norðurá í Borgarfirði og átti hann að hafa strandað rétt við bæinn Munaðarnes í Stafholtstungum, þar sem hann hafi síðan drepist. Í fréttinni kom fram að um hrefnu hafi verið að ræða sem greinilega hafði villst af leið.

Þá var kynnt hér á mbl.is að hleypa ætti af stokkunum gagnvirku vefvarpsbloggi. Gagnvirknin reyndist hinsvegar ekki vera meiri en svo að um aprílgabb var að ræða. Mbl.is þakkar jákvæð viðbrögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert