Mælingar Umhverfisstofnunar sýna, að magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti á höfuðborgarsvæði hefur aukist frá því í september þegar Hellisheiðarvirkjun var gangsett. Stofnunin segir, að magnið sé hinsvegar langt undir viðmiðunarmörkum þótt gamalkunn hveralykt finnist iðulega í austari hverfum borgarinnar, sérstaklega þegar hægur vindur stendur af austri.
Umhverfisstofnun segir, að í miklum styrk sé brennisteinsvetni skaðlegt heilsu. Augu, lungu og öndunarvegur séu einkum viðkvæm. Lægsti styrkur sem talinn er valda skaða er u.þ.b. 15.000 míkrógrömm í rúmmetra en það er meira en 100 sinnum yfir þeim styrk sem mest hefur mælst hefur í Reykjavík.
Í íslenskum reglugerðum hafa ekki verið sett umhverfismörk fyrir leyfilegum hámarksstyrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Í Kaliforníu hafa umhverfismörk verið miðuð við næmni fólks fyrir lykt, þar eru mörkin 42 míkrógrömm í rúmmetra sé miðað við klukkustundarmeðaltal, en rannsóknir sýna að við þann styrk skynji um 80% almennings lyktina. Mælingar frá því í febrúar 2006 til miðjan febrúar 2007 sýndu að styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík fór samtals 48 sinnum yfir umhverfismörk Kaliforníu í mislöngum tímabilum, þar af urðu 45 skipti eftir 1.september 2006. Vegna þessa hefur meira borið á hveralykt í Höfuðborginni eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett.