Mjólkursamsalan segir rangt að tilboð fyrirtækisins í ostakvóta hleypi upp verði á kvótum

Mjólkursamsalan segir að það sé rangt sem haldið hafi verið fram að tilboð fyrirtækisins í ostakvóta hleypi upp verði á kvótum og innfluttum osti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Tilkynningin er eftirfarandi:

„Vegna umræðu um kaup á tollkvótum vill Mjólkursamsalan taka fram að af 100 tonna ostakvóta sem nýlega var úthlutað frá löndum Evrópubandalagsins hlaut fyrirtækið kvóta sem nemur 19,2 tonnum. Um var að ræða tvo tollflokka. Annar nam 80 tonnum og þar af hlaut Mjólkursamsalan 14,2 tonn. Í hinum tollflokknum var boðið upp á 20 tonn og þar hlaut fyrirtækið 5 tonn.

Í báðum tilvikunum var tilboð Mjólkursamsölunnar undir meðalverði og töluvert undir hæsta verði. Annars vegar var um að ræða 403 króna meðalverð fyrir kíló. Þar hljóðaði tilboð Mjólkursamsölunnar upp á 367 krónur en hæsta boð var 600 krónur. Hins vegar var um að ræða 360 króna meðalverð. Þar var tilboð Mjólkursamsölunnar 330 krónur en hæsta boð 500 krónur. Það er því rangt sem haldið hefur verið fram að tilboð fyrirtækisins í ostakvóta hleypi upp verði á kvótum og innfluttum osti.

Mjólkursamsalan, áður Osta- og smjörsalan, hefur á undanförnum árum flutt inn osta, bæði innan tollkvóta og utan þeirra. Árið 2004 nam innflutningur fyrirtækisins 52,3 tn. Árið 2005 flutti Osta- og smjörsalan inn 38,1 tn og 43,2 tonn á síðasta ári. Það er því líka rangt að fyrirtækið kaupi ostakvóta án þess að nýta hann, eins og haldið hefur verið fram að undanförnu.

Ostur sem fyrirtækið flytur inn stendur öllum endurseljendum til boða. Innflutningi Mjólkursamsölunnar er ætlað að auka framboð osta og auðvelda aðgang íslenskra neytenda að erlendum ostum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert