Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks VG, segir að með niðurstöðunni í atkvæðagreiðslunni í Hafnarfirði í gær hafi orðið þáttaskil í langvarandi deilum um virkjanastefnu og efnahagsstefnu á Íslandi. Meirihluti þeirra, sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, var andvígur deiliskipulagstillögu þar sem gert er ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík.
Ögmundur segir á heimasíðu sinni, að meirihlutinn hafi valið varfærni og telji greinilega nóg komið af stóriðju innan bæjarmarkanna.
„Þá er ég ekki í vafa um að fólk hefur horft heildstætt á málin, með tilliti til virkjana sem þyftu að koma til sögunnar svo fóðra mætti hina stækkuðu verksmiðju og þá einnig til efnahagslegra afleiðinga. Menn vita hvað áframhaldandi hávaxtastefna þýðir fyrir fjárhag fyrirtækja og einnig heimilsbókhaldið. Þjóðin hefur þurft að búa við ríkisstjórn sem ekkert hefur séð annað í kortum framtíðarinnar en ál og aftur ál," segir Ögmundur m.a.