Sjö ára drengur bjargar yngri systkinum sínum

Litlu mátti muna að illa færi á bænum Ferjubakka í Borgarhreppi í gær þegar yngsta barnið á bænum kveikti á eldavél svo hlutir sem á henni stóðu tóku að brenna og af varð mikill svartur reykur. Það var elsta barnið á heimilinu sem bjargaði yngri systkinum sínum út úr reyknum á meðan móðirin notaði slökkvitæki til að slökkva eldinn. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.

Að sögn Ólafar M. Brynjarsdóttur, húsfreyju á Ferjubakka voru tildrög málsins þau að börnin voru að leika sér á efri hæð hússins á meðan hún skrapp til að taka þvott úr þvottavélinni. Elsta barnið, sem er sjö ára drengur, lét hana vita að eldur væri laus í eldhúsinu. Skipti engum togum að mikill svartur reykur gaus upp samfara eldinum, svo ekki sást handa skil.

„Mín fyrsta hugsun var að slökkva eldinn með slökkvitæki sem ég hef í eldhúsinu. Allt var svart af reyk en elsti sonur okkar, sem aðeins er sjö ára, kom inn í reykinn og tók yngri systkini sín bæði út. Ef hann hefði ekki gert það veit ég ekki hvernig þeim hefði reitt af því reykurinn var gífurlegur.”

Ólöf fékk sjálf snert af reykeitrun og þurfti að leita aðstoðar á Heilsugæslustöðinni í Borgarnesi. Eldurinn olli litlu tjóni og vegna þess hve hvasst var í veðri var hægt að opna alla glugga og reykræsta húsið. “Það er hinsvegar allt svart af sóti. Það gerir þó ekkert til og mest um vert að allir sluppu ómeiddir,“ sagði Ólöf M. Brynjarsdóttir að lokum.

Vefur Skessuhorns

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert