Grímur Gíslason, fréttaritari Ríkisútvarpsins á Blönduósi, andaðist sl. laugardag, 31. mars, á 96. aldursári. Grímur fæddist 10. janúar 1912 í Þórormstungu í Vatnsdal. Hann gekk að eiga Sesselju Svavarsdóttur frá Akranesi árið 1941 og hófu þau búskap í Saurbæ vorið eftir. Bjuggu þau þar til vorsins 1969 er þau fluttu á Blönduós þar sem Grímur vann á skrifstofu Kaupfélags Húnvetninga.
Grímur var afar félagslyndur og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir samfélagið. Hann var m.a. oddviti í Áshreppi og starfaði mikið að félagsmálum á Blönduósi og víðar. Meðal annars var hann virkur í Lionshreyfingunni og söng í kirkjukórum í um sjö áratugi, nú síðast í desember sl. Árið 2002 var Grímur gerður að heiðursborgara Blönduóss vegna starfa sinna að fjölmiðlun, veðurathugunum og heilladrjúgu félagsmálastarfi. Ári síðar hlaut hann fálkaorðuna fyrir störf að félags- og byggðamálum. Grímur starfaði sem veðurathugunarmaður í 25 ár og lét af starfinu árið 2003. Á síðasta ári var honum til heiðurs reist afsteypa af veðurspámanninum eftir Ásmund Sveinsson í miðbæ Blönduósbæjar. Eiginkona Gríms andaðist árið 2000 en þau eignuðust fjögur börn. "Þetta er Grímur Gíslason sem talar frá Blönduósi" voru ætíð lokaorð í fréttapistlum hans úr Austur-Húnavatnssýslu og má segja að hver sá sem með fréttunum fylgdist muni þau.