Forsætisráðherra Svíþjóðar, Fredrik Reinfeldt kom í stutta opinbera heimsókn til landsins í dag. Hann nýtti tímann til fundahalds og ræddi við Geir Haarde forsætisráðherra og meðlimi Viðskiptaráðs Íslands. Hann sagði meðal annars að Svíar gætu lært af hinni íslensku útrás og að þjóðir heimsins þyrftu að vinna saman að því að finna lausn á loftslagsvandanum. Hann sagði að Svíar hygðust reka sín kjarnorkuver áfram til 2010 og endurmeta stöðuna eftir það.
Hann sagði að þeir Geir Haarde hefðu rætt saman um ýmis málefni. Til dæmis hvernig efla mætti atvinnulífið og fá fleira fólk út á vinnumarkaðinn.
„Það var nefnt að hér væri skortur á vinnuafli og í Svíþjóð leggjum við áherslu á leiðir til að laða vinnufært fólk sem er ekki í vinnu út á vinnumarkaðinn. Við ræddum einnig um vinnuafl frá öðrum löndum og hvernig hægt væri að viðhalda því jákvæða efnahagsumhverfi sem nú ríkir. Við töluðum líka um umhverfismál og loftslagsmál og við ræddum um þær breytingar sem hafa átt sér stað í öryggismálum á undanförnum árum," sagði Reinfeldt í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.