Rigning í mars í Reykjavík 57% yfir meðallagi

Mikið rigndi í Reykjavík í mars.
Mikið rigndi í Reykjavík í mars. mbl.is/G. Rúnar

Úrkomu­samt var í Reykja­vík í mars. Mæld­ist úr­kom­an 129 mm og er það 57% um­fram meðallag og er mesta úr­koma í mars frá ár­inu 2000, en þá mæld­ist hún 146 mm. Á Ak­ur­eyri mæld­ist úr­kom­an 58 mm og er það 35% um­fram meðallag. Á Höfn mæld­ist úr­kom­an í mars 205 mm.

Sam­kvæmt tíðarfars­yf­ir­liti frá Veður­stof­unni var tíðarfar í mars frem­ur óró­legt, þó lengst af hag­stætt til lands­ins, en til sjáv­ar­ins var gæfta­lítið og tíðin tal­in slæm. Sam­göngu­trufl­an­ir á heiðar­veg­um voru með tíðara móti sök­um ill­viðra, en snjór var með minna móti í lág­sveit­um miðað við árs­tíma. Þrálát snjóflóðahætta var norðan til á Vest­fjörðum þó snjór væri ekki mik­ill að magni til.

Þrátt fyr­ir hlý­indi vel yfir meðallagi voru þrír mars­mánuðir á síðustu árum hlýrri en þessi (2003, 2004 og 2005). Meðal­hiti í Reykja­vík mæld­ist 2,2 stig og er það 1,7 stig­um ofan meðallags. Á Ak­ur­eyri var meðal­hit­inn 2,0 stig sem er 3,3 stig­um ofan meðallags. Á Hvera­völl­um var meðal­hiti -3,6 stig og er það 2,3 stig­um ofan við meðallag. Á Höfn Hornafirði var meðal­hit­inn 3,1 stig.

Sól­skins­stund­ir í Reykja­vík mæld­ust 101 og er það 10 stund­um und­ir meðallagi mars­mánaðar. Á Ak­ur­eyri mæld­ust sól­skins­stund­irn­ar 51 og er það 26 und­ir meðallagi. Þetta er minnsta sól­skin í mars á Ak­ur­eyri síðan 1981, en ámóta sól­ar­lítið var þó 1994.

Lægsti hiti á land­inu í mars mæld­ist á Kolku nærri Blönd­u­lóni -21,4 stig þann 1. en lægsti hiti í byggð mæld­ist í Möðru­dal  þann 20., -19,9 stig. Hæsti hiti mæld­ist á Sauðanes­vita þ.31., 16,9 stig. Hiti fór í 18,4 stig á Dala­tanga síðar um kvöldið þ.31. Það há­mark telst til apr­íl­mánaðar í bók­um Veður­stof­unn­ar því há­marks- og lág­marks­hita­mánuðum lýk­ur kl.18 síðasta dag mánaðar. Þann 28. mars árið 2000 mæld­ist hiti á Eskif­irði 18,8 stig og er það hæsti hiti sem mælst hef­ur í mars­mánuði hér á landi, en á mannaðri stöð hef­ur hiti orðið hæst­ur á Sandi í Aðal­dal í 27. mars 1948.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert