Segja Pálma eiga persónulegan þátt í rekstrarerfiðleikum IE

Fyrrum forsvarsmenn Icelandic Express hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja, að Pálmi Haraldsson eigi á stóran persónulegan þátt í því hversu illa var komið fyrir Iceland Express þegar hann komst yfir félagið í október 2004.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Vegna ummæla Pálma Haraldssonar í fjölmiðlum í dag, 2. apríl 2007 vilja undirritaðir fyrrum hluthafar í Iceland Express benda á eftirfarandi:

    Kjarni þessa máls er sá að Pálmi Haraldsson á stóran persónulegan þátt í því hversu illa var komið fyrir Iceland Express þegar hann komst yfir félagið í október 2004.

    Sem stjórnarmaður í Flugleiðum hf. á árunum 2003 og 2004, þar af sem varaformaður stjórnar fram í júní 2004, tók Pálmi virkan þátt í að skipuleggja skaðlega undirverðlagningu Icelandair gagnvart Iceland Express.

    Þessi undirboð leiddu til þess að Iceland Express hafði aldrei þær tekjur sem þurfti til að ná endum saman. Samkeppniseftirlitið hefur nú úrskurðað að undirboðin hafi verið alvarleg brot á samkeppnislögum og sektað Icelandair um 190 milljónir króna vegna þess.

    Pálmi Haraldsson ber fulla ábyrgð á lögbrotum Icelandair, ásamt öðrum stjórnarmönnum og forstjóra Flugleiða hf. Þessi lögbrot komu Iceland Express á kaldan klaka og neyddu stofnendur félagsins til að selja það á lágu verði. Kaupendur voru Pálmi Haraldsson og Jóhannes Kristinsson viðskiptafélagi hans. Þeir höfðu margsinnis á árunum 2003 og 2004, meðan þeir voru fimmtu stærstu hluthafar í Flugleiðum hf. og sátu í stjórn félagsins, falast eftir hlut í Iceland Express en verið hafnað.

    Ummæli Pálma Haraldssonar um meinta vankunnáttu stjórnenda Iceland Express og að þeir hafi verið á leið í fangelsi vegna stöðu fyrirtækisins eru vart svaraverð, en ber að skoða í þessu samhengi. Umfram allt skiptir hér málið að Pálmi og viðskiptafélagi hans höfðu mestu persónulegu hagsmunina af því að almenningshlutafélagið Icelandair fórnaði 5 milljarða króna farþegatekjum árin 2003 og 2004, því þá gátu þeir eignast Iceland Express á lágu verði.

    Engir stjórnendur fyrirtækis í þessari stöðu hefðu getað ráðið við það ofurefli sem Icelandair beitti.

Undir þetta skrifa Aðalsteinn Magnússon, Guðmundur Þór Guðmundsson, Ólafur Hauksson og Sigurður I. Halldórsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert