Fatlaður maður í hjólastól varð fyrir fólskulegri árás á Lækjartorgi á sunnudag þegar hann var barinn og í þokkabót rændur sínu nauðsynlegasta öryggistæki, farsímanum.
Kristján Vignir Hjálmarsson notast við rafknúinn hjólastól og var akandi á leið heim til sín þegar ókunnugur maður vatt sér að honum og bað hann að kaupa handa sér sígarettur. „Ég neitaði því og sagðist ekki geta það en þá kýldi hann mig í andlitið,“ segir Kristján. „Ég reyndi þá að aka í burtu en hann hljóp mig uppi og stoppaði stólinn hjá mér. Þegar hann gafst upp á að tala við mig tók hann af mér símann og reyndi líka að drepa á rafmagnsmótornum í hjólastólnum og taka af mér veskið. Hann stakk af með símann en ég kallaði á aðstoð frá vegfaranda sem hringdi í lögregluna sem kom hálftíma síðar. Ég fékk að hringja úr síma hjá öðrum vegfaranda til að láta vita af mér en lögreglan kallaði út mannskap til að leita að ræningjanum en án árangurs.
Þetta atvik skelfdi mig mjög og ég hélt að maðurinn ætlaði að ganga frá mér. Ég á mjög oft leið um Lækjartorgið en hef aldrei lent í öðru eins.“
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.