Ferðafélag Íslands hefur keypt Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi af Flugbjörgunarsveitinni í Skógum. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir ætlunin sé að endurnýja skálann og bæta aðstöðu fyrir göngumenn á hálsinum. Þar með eiga Útivist og FÍ sitthvorn skálann á Fimmvörðuhálsi sem tengir saman Skóga og Þórsmörk og er ein vinsælasta gönguleið á landinu.
Baldvinsskáli var reistur á Fimmvörðuhálsi 1974 og er hann nefndur í höfuðið á Baldvini Sigurðssyni sem vann ötullega að byggingu skálans ásamt félögum sínum í Flugbjörgunarsveitinni að Skógum. Baldvin og félagar hans voru frumkvöðlar í björgunarmálum Austur-Eyfellinga og reistu skálann sem skjól fyrir ferðamenn á þessum óblíðu slóðum en Fimmvörðuháls getur verið eitt mesta veðravíti á landinu þegar þannig stendur á. Skálinn er vel staðsettur á Fimmvörðuhálsi. Á síðustu árum hefur skálinn hinsvegar látið nokkuð á sjá undan veðri og óblíðum náttúruöflum enda geta sterkir vindar geisað á Fimmvörðuhálsi.
Efst á hálsinum er Fimmvörðuskáli sem Útivist rekur og segir Páll Guðmundsson,formaður FÍ að Ferðafélagið hafi sett sig í sambandi við Útivist og gert þeim grein fyrir áformum FÍ. "Góð aðkoma og bætt aðstaða í Baldvinsskála er mikilvæg öllum ferðamönnum og göngugörpum til aukinnar ánægju á leið þeirra um svæðið. Skálinn verður allur tekinn í gegn strax í vor. Það verður ekki rukkað fyrir gistingu heldur er frekar verið að huga að bættri aðstöðu ferðamanna á svæðinu og hann verður opinn allt árið um kring" segir Páll og segir að með þessu séu skálar Ferðafélagsins þá orðnir 37 talsins víða um land.