„Það hefur ekki verið til nein varaáætlun," segir Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan, um þann möguleika að auka framleiðsluna í álverinu í Straumsvík með einhverjum öðrum hætti en þeim sem kosið var um á laugardaginn. Raunhæft er talið að auka framleiðsluna á núverandi athafnasvæði álversins með því, einfaldlega, að skipta á tveimur gömlum kerskálum og nýjum með meiri framleiðslugetu.
„Gildandi starfsleyfi heimilar framleiðslu á allt að 460.000 tonnum á ári en við höfum í allri okkar vinnu miðað við þá deiliskipulagstillögu sem kosið var um. Við munum auðvitað rýna í þá möguleika sem við höfum í stöðunni en það mun taka tíma."
Alcan mun einnig meta hvaða áhrif niðurstaðan kann að hafa á framtíð álversins, að því er sagði í tilkynningu móðurfélagsins í gær. Vitnað var í Michel Jacques, forstjóra Alcan Primary Metal Group, sem sagði m.a. að Alcan myndi meta gaumgæfilega alla þá kosti sem í boði væru. Hann benti á að stór hluti íbúa Hafnarfjarðar hefði stutt stækkunina og færði þeim þakkir og eins starfsmönnum Ísal fyrir framlag þeirra í þágu áformanna.