Íslenskir háskólar gera samninga við Ohio-háskóla

John Glenn og Ólafur Ragnar Grímsson.
John Glenn og Ólafur Ragnar Grímsson.

Í viðræðum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við forystumenn Ohio ríkisháskólans í Bandaríkjunum í gær kom fram ríkur vilji til að efla samstarf við íslenska vísindasamfélagið um rannsóknir á fjölmörgum sviðum. Í heimsókninni voru undirritaðir þrír samningar milli Ohio-háskólans og þriggja íslenskra háskóla, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Akureyri.

Þá voru jafnframt mótaðar tillögur um rannsóknarverkefni í landgræðslu, orkumálum, jöklafræðum og um aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.

Ólafur Ragnar átti einnig viðræður við nýkjörinn ríkisstjóra Ohio, Ted Strickland um fjölþætt tækifæri sem fólgin eru í aukinni samvinnu milli Ohio og Íslands á sviði vísinda, rannsókna og viðskipta.

Forseta Íslands var boðið að flytja opnunarfyrirlestur í nýrri alþjóðlegri fyrirlestraröð sem háskólinn hefur efnt til. Fyrirlestur forseta bar heitið The Challenges of Climate Change: Iceland – A Laboratory for Global Solutions. Hann fjallaði um framlag Íslands á sviði alþjóðlegra rannsókna og hvernig Íslendingar gætu með samvinnu við fremstu háskóla og rannsóknarstofnanir í veröldinni vísað veginn að nýjum lausnum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og gróðureyðingu.

Ólafur Ragnar átti einnig viðræður við John Glenn, fyrrum öldungardeildarþingmann og geimfara en hann var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem fór hringinn í kringum jörðina. Glenn fór einnig út í geim fyrir tíu árum og varð þá elsti maðurinn, sem farið hefur í geimferð.

Við Ohio-ríkisháskólann starfar ný stofnun kennd við John Glenn þar sem stundaðar eru rannsóknir á sviði stjórnsýslu, stefnumótunar og þróunar lýðræðis. Ólafur Ragnar og John Glenn ræddu meðal annars nýjar aðferðir á vettvangi þjóðmála og alþjóðlegra samskipta og hvernig þær geta greitt fyrir lausnum á mörgum þeirra vandamála sem helst brenna á heimsbyggðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert