Ekki er með öllu ljóst hvenær fyrst var farið að setja málshætti inn í páskaegg hér á landi, en þetta virðist vera séríslenskt fyrirbæri.
Þann sið að setja spakmæli á páskaegg eða inn í þau má þó að líkindum rekja aftur til sautjándu aldar, að því er fram kemur í grein Símonar Jóns Jóhannssonar þjóðfræðings á Vísindavefnum.
„Íslenskir súkkulaðigerðarmenn lærðu listina í Danmörku og hafa eflaust þar fengið hugmyndina að því að setja málshætti inn í eggin. Íslendingar virðast vera eina þjóðin sem haldið hefur þessum sið allt fram á þennan dag.“