Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Umhverfisstofnun, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hafa samið um samstarf sín á milli um vöktun á lífríki Þingvallavatns. Vöktunin mun veita mikilvægar upplýsingar um grunnþætti í lífríki vatnsins sem er nauðsynlegur þáttur í verndun þess.
Fram kemur í tilkynningu, að markmið vöktunarinnar sé að beita samfelldum langtíma mælingum svo unnt verði að kortleggja hugsanlegar breytingar á lífríki vatnsins vegna meintra álagsþátta s.s. nýtingar vatns, frárennslis, vatnsmiðlunar eða vegagerðar.
Lífríki Þingvallavatns er fjölskrúðugt. Fjölbreytni bleikju í vatninu er einstæð og tvær sérstæðar marflóartegundir fundust fyrst í lindum vatnsins. Þingvellir eru auk þess á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Árið 2005 samþykkti Alþingi lög um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.