Verndun og aðhlynning mannréttinda er afar mikilvægt málefni innan utanríkisráðuneytis Íslands og í hjarta utanríkisstefnu landsins, sagði Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra meðal annars við upphaf alþjóðlegrar ráðstefnu um mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna í Norræna húsinu í gær.
Hún fór um víðan völl í erindi sínu og sagði ljóst að Ísland mundi halda áfram að stuðla að og auka virðingu fyrir mannréttindum. Valgerður kom m.a. inn á að 30. mars sl. hefði verið skrifað undir nýjan alþjóðasamning SÞ um réttindi fatlaðra og valfrjálsa bókun hans og kvaðst hún vona að það yrði til að auka réttindi fatlaðra.