Grindavíkin GK 606, 157 brúttótonna bátur, bættist nýlega í flota Grindvíkinga og kom hann í fyrsta skipti til heimahafnar á dögunum eftir slipp í Reykjavík. Skipið er í eigu Stakkavíkur ehf. og Rúnars Björgvinssonar og verður gert út til línu- og netaveiða.
Grindavíkin hét áður Ársæll Sigurðsson HF 80 og er einn Kínabátanna svokölluðu, var smíðaður í Kína 2001. Frá þessu segir á grindavik.is og þar er einnig sagt frá því að bátur með nafninu Geirfugl GK 66 sé aftur kominn í flota Grindvíkinga. Hann er nýsmíði frá Samtak í eigu Óla Björns Björgvinssonar. Geirfugl er 15 brúttótonna línubátur.
Stutt er síðan Hópsnesið GK 77 kom til Grindavíkur en það er einnig 15 brúttótonna línubátur, smíðaður hjá Mótun af gerðinni Gáski. Hópsnesið er í eigu Stakkavíkur ehf.