Ölvaður og ökuréttindalaus á númerslausum bíl

Lögreglumenn á Akureyri veittu í gær athygli bíl, sem ekið var í átt til bæjarins og var ekkert skráningarnúmer framan á bílnum. Þegar ökumaður bifreiðarinnar varð þess var að lögreglan hafði séð hann ók hann rakleitt heim að næsta sveitabæ og reyndi að fela bílinn bak við fjós til að forðast lagana verði en án árangurs.

Í ljós kom að þarna voru á ferð tveir piltar sem höfðu lent í höndum lögreglunnar á Blönduósi nóttina áður og höfðu lögreglumenn þar klippt númerin af bílnum þar sem hann hafði ekki verið færður til skoðunar á tilsettum tíma. Lögregla segir að sjá hafi mátt strax að ökumaður var ölvaður og var hann færður á lögreglustöðina á Akureyri til skýrslutöku. Upplýsti hann þá einnig að hann væri sviptur ökuréttindum frá 2002.

Við frekari skoðun á sakaferli mannsins, sem reyndist þó nokkur, kom í ljós að nú í apríl hafði hann þrisvar sinnum áður verið tekinn vegna akstursbrota, þar af tvisvar vegna ölvunar við akstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert