Áherslan á endalausar framfarir er tál

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. mbl.is/Golli

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í páskaprédikun í Dómkirkjunni í morgun, að upprisa hins krossfesta sé yfirlýsing Guðs um helgi lífsins og eilíft gildi. Eftir því þurfi menn að hlusta og taka mark á, þegar sífellt fleiri upplýsingar bendi til að framtíð lífs á jörðu sé ógnað af mannavöldum.

„Við göngum freklega gegn lífríki jarðar með græðgi okkar og yfirgangi og rányrkju. Við erum að uppskera ávexti blindrar og guðlausrar tæknihyggju og manndýrkunar. Engin algild gildi né lögmál virðast lengur virt, allt er falt, rétt og rangt er einungis álitið afstætt. Eða öllu heldur, aðeins aflsmunur. Hinn auðugi og sterki hefur rétt fyrir sér. Þetta er skelfileg lygi sem leiðir til glötunar, upplausnar samfélags og menningar. Boðskapur fagnaðarerindisins er köllun til iðrunar og afturhvarfs," sagði Karl.

Hann sagði að samstillt átak hinna mörgu þurfi til að hamla gegn aðsteðjandi umhverfisvá. „En umfram allt þurfum við öll að horfa í eigin barm og endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar. Við verðum að fara að horfast í augu við að draumar okkar og framtíðarsýnir séu ef til vill byggðar á kolröngum forsendum. Að áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, mátt hins hrausta, sterka og stælta, er tál. Á móti kröfum hátækni og háhraða og hámörkun afkasta og ágóða, þarf að koma vægi alúðar og umhyggju fyrir lífinu, landinu, náunganum, ungviðinu veika og brothætta. Meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, er frelsari heimsins, frelsari þinn."

Í prédikun sinni sagði biskup einnig, að átök um lífsskoðanir hafi verið áberandi hér á landi nú í vetur. „Það er sem hin harða og kalda andstaða gegn kristninni sem einkenndi upphaf fyrri aldar sé gengin aftur í hatrömmum andtrúaráróðri. Hinn andlegi hafís guðleysisins lónar fyrir landi, og ískalda og vonarsnauða þoku stafar frá honum. Gegn því stendur hinn hlýi vorþeyr upprisutrúar og vonar," sagði Karl Sigurbjörnsson.

Páskaprédikun biskups Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert