Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, segir í páskaávarpi á vef þjóðkirkjunnar, að kærleikurinn sé sterkari en hatrið og dauðinn og muni hafa síðasta orðið en ekki forlögin, lögmálið, dauðinn. Þessvegna dirfist kirkjan að tala um lifandi von við látinna gröf, tala um upprisu og eilíft líf og endurfundi ástvina.
„Kristur er sannarlega upprisinn! Úr sorginni og harminum rís huggunin, vonin, fyrirgefningin. Kristur er upprisinn og hann er að verki í heiminum okkar í orði sínu og anda," segir Karl.
„Sérhver sunnudagur árið um kring er páskadagur, fyrsti dagur hverrar viku, þar sem kirkjan, vinir Jesú og lærisveinar koma saman til að minnast Jesú og mæta honum, við skírnarlaug og altarisborð. Sérhver sunnudagur er páskadagur, dagur nýs upphafs, nýrrar byrjunar, dagur vonar, er við setjum okkur fyrir sjónir þetta undur að Kristur er upprisinn," segir Karl ennfremur.
Páskamessa rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar var í Dómkirkjunni í Reykjavík í gærkvöldi og klukkan 8 í morgun hófst þar hátíðarmessa þar sem Karl Sigurbjörnsson prédikaði. Hátíðarmessa var víða í kirkjum í morgun.