Grágæs, sem ber einkennisstafina SLN og var fyrst merkt á Blönduósi í júlí 2000 hefur skilað sér á varpstöðvarnar á Blönduósi í áttunda sinn ásamt maka.
Ferðir þessarar gæsar hafa verið skráðar frá því hún var merkt og fer hún að því er virðist sunnar á Bretlandseyjar en margar Blönduósgæsirnar gera og velur sér dvalarstað rétt sunnan við landamæri Skotlands, nánar tiltekið í Newton Pool í Norðymbralandi.
Von er á fleiri merktum gæsum áður langt um líður en þessa dagana fjölgar gæsum og öðrum farfuglum dag frá degi. Upphaflega voru um 120 gæsir merktar á Blönduósi en í gegn um tíðina hefur grisjast úr þeim hópi. Enn eru þó eftir nokkrar gæsir sem skila sér yfir hafið og heim.