Landlæknisembættið segir, að skortur á hjúkrunarfræðinum og sjúkraliðum til starfa ógni gæðum heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga. Því hafi embættið leitað til fulltrúa Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, Landspítala- háskólasjúkrahúss, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til að ræða á hvern hátt mætti sporna við manneklu meðal hjúkrunarfræðinga.
Á heimasíðu landlæknisembættisins er fjallað um skýrslu, sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sendi frá sér í síðustu viku en þar kom fram að alls vanti nú 582 hjúkrunarfræðinga til að leysa úr skorti á hjúkrunarfræðingum til starfa í 445 stöðugildi á sjúkrahúsum, í heilsugæslu og hjúkrunarheimilum.
Landlæknisembættið segir, að nú þegar hafi verið gripið til ýmissa aðgerða og m.a. hafi Alþingi samþykkt fjárveitingu, sem geri kleift að samtals 153 nemendur stundi nám á fyrsta ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri frá árinu 2007. Hins vegar þyrftu þessir nemendur að vera a.m.k. 190 talsins til að bæta úr fyrrgreindum skorti.
Segir landlæknir brýnt, að allir hlutaðeigandi aðilar vinni áfram saman að lausn þessa flókna vanda svo unnt sé að standa vörð um gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu og öryggi þeirra sem hennar þarfnast.